Gamli fjölmiðlafrumvarpsdraugurinn

2006-410-future-media-ownership[1]Gamli fjölmiðlafrumvarpsdraugurinn ríður húsum á Íslandi kreppunnar.

Auðvitað skiptir máli hverjir eiga fjölmiðlana. Smám saman lýkst það upp fyrir þjóðinni. Bloggarar og álitsgjafar eru samt ekki sammála um hvort það sé Davíð eða Ólafi Ragnari að kenna að hér hafi fjölmiðlar komist í eigu þeirra sem mest þörf var á að þeir gagnrýndu.

Forsetinn á að hafa afhent auðmönnum stjórnina á þjóðfélagsumræðunni með því að stoppa hið alræmda fjölmiðlafrumvarp.

Davíð á að hafa eyðilagt möguleika á lögum um eignarhald á fjölmiðlum með því að hafa samið afspyrnulélegt frumvarp.

Um þetta rífast menn síðan. Hvor sé sökudólgurinn.

Þetta er svona týpísk íslensk þjóðfélagsumræða.

Áður en lengra er haldið vil ég taka fram að ég er ekki sannfærður um að gamla fjölmiðlafrumvarpið hafi verið svo galið.

Ég held alla vega að erfitt hafi verið að semja frumvarp sem átti að koma í veg fyrir að fjölmiðlar landsins kæmust í fárra eigu nema að það bitnaði á þeim fáu sem fjölmiðlana áttu.

Kjarni málsins er sá að hér á landi hafa þeir ráðið ferðinni sem vilja helst engin lög um eignarhald á fjölmiðlum.

Hafi gamla frumvarpið verið svona ómögulegt af hverju er þá ekki fyrir löngu búið að leggja fram annað betra?

Andstæðingar fjömiðlafrumvarpsins sögðu á sínum tíma að ekki hefði farið fram nein umræða um eignarhald á fjölmiðlum. Þess vegna væri frumvarpið ekki tímabært.

Jæja - en hvar er þá þessi umræða sem menn söknuðu svo sárt?

Hvernig hafa íslenskir fjölmiðlar staðið sig í því að upplýsa okkur um hvernig tekið er á þessum málum í útlöndum?

Hafið þið lesið margar greinar um það?

Íslendingar hafa tileinkað sér hin hörðu markaðsviðhorf þegar kemur að fjölmiðlum. Um fjölmiðla eiga bara að gilda markaðslögmál. Þjóðfélagsumræðan er markaðsvædd. Upplýsingagjöf til almennings er markaðsvædd.

Í leiðara Fréttablaðsins frá árinu 2005 er talað til þeirra sem vilja tryggja með lögum dreift eignarhald á fjölmiðlum:

Þetta góða fólk virðist gleyma því að í lýðfrjálsu landi er dómur um fjölmiðla á degi hverjum kveðinn upp á hinum frjálsa markaði. Þeir miðlar sem standa sig ekki, þykja óspennandi, óvandaðir eða ótrúverðugir, tapa kaupendum og auglýsendum og lúta í lægra haldi fyrir vandaðri og vinsælli miðlum. Um þetta eru nokkur nýleg dæmi á okkar litla fjölmiðlamarkaði, bæði hvað varðar dagblöð og ljósvakamiðla. Þetta hlutverk markaðarins eiga stjórnvöld eða stjórnmálamenn ekki að taka að sér, enda stríðir það gegn grundvallarreglum lýðræðisins.

Fróðlegt er að skoða þessi orð í ljósi nýjustu frétta af ritskoðunartilburðum eigenda fjölmiðla.

Og ekki síður í ljósi berlúskónísks ástands á íslenskum fjölmiðlamarkaði - þar sem þessa dagana er unnið að því að veikja Ríkisútvarpið.

Það var hinn stjórnlausi markaður sem kallaði yfir okkur kreppuna.

Og markaðsstýrðir fjölmiðlarnir vöruðu okkur að sjálfsögðu ekki við henni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

Þú mátt þakka þínum forseta fyrir orðuveitingu útrásarvíkinga.

 það voru þeir sem keyptu þá fjölmiðla sem var hægt að kaupa.

Anna Ragna Alexandersdóttir, 18.12.2008 kl. 11:32

2 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Það er ekki víst að nokkur hafi fjármagn til að starta nýjum fjölmiðli í dag,en hefði verið það 2005. Vantrú á breiða hlutafjár eign í fjölmiðli er sennilega of mikil.

Ragnar Gunnlaugsson, 18.12.2008 kl. 12:24

3 Smámynd: Kommentarinn

Ég veit ekki hvort við getum kennt forsetanum um að fara að vilja þjóðarinnar og stoppa þetta meingallaða frumvarp á sínum tíma. Hvernig stendur á því að ekki kom fram annað og betra frumvarp eftir þetta? Getur verið að Dabbi og Dóri hafi bara farið í fýlu og ekki nennt að semja nýtt? Frekar slöpp vinnubrögð verð ég að segja...

Kommentarinn, 18.12.2008 kl. 18:01

4 identicon

"Vilji þjóðarinnar" var auðvitað stórlega mótaður af því sem hún sá og heyrði í fjölmiðlum því ekki vorum við öll á staðnum hverju sinni til að móta okkar eigin skoðanir.

Skoðanamótunin var slík að það var ljóst að það er sama hvaða frumvarp hefði komið næst, þjóðin trúði því statt og stöðugt að þetta væri bara pólitísk öfund í Davíði.

Fransman (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 20:49

5 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Góður pistill :)

Hólmgeir Karlsson, 18.12.2008 kl. 23:59

6 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Forsetans sökl ekki spurning . kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 20.12.2008 kl. 18:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband