Blessað einkaframtakið

trampolinNú er í tísku að úthúða einkaframtakinu. Það er mikið ólíkindatól og nauðsynlegt að hemja það með lögum og reglum. Fersk dæmi sýna hvernig fer ef það er látið ógert.

En stutt er til beggja öfga í þessum efnum. Þjóðfélag þar sem búið er að kæfa frumkvæði og framtak fólksins, sjálfsbjargarviðleitni þess og kreatívitet, er heldur ekki gott.

Milli jóla og nýárs var hringt dyrabjöllu hér í Norðurbyggðinni. Húsfreyjan opnaði og við henni blasti sirka fimm ára gutti, rjóður í vænum vöngum, úlpuklæddur og á nýjum stígvélum. Hann kvaðst vera að safna tómum flöskum. Hvort nokkrar væru hér á lausu?

Hann var ósköp kurteis.

Húsfreyjan spurði um málefnið sem verið væri að safna fyrir.

Stráksi tjáði henni grafalvarlegur að hann væri að safna sér fyrir trampólíni og hygðist fara út í slíkar fjárfestingar með vorinu, ef söfnun gengi vel.

Hann uppskar góðan slatta af verðmætum plastflöskum hjá okkur og var býsna drjúgur með sig þegar hann skrölti með pokann niður útidyratröppurnar.

Lesendum og bloggvinum óska ég gleðilegs nýárs og leyfi mér að vona að þjóðin verði skapandi og framtakssöm við þjóðfélagsumræðuna á komandi tíma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Héðinn Björnsson

Það er spurning hvort ekki þurfi að setja þak á misskiftingu auðs í samfélaginu til að tryggja þá valddreyfingu sem er nauðsynleg til að raunverulegt lýðræði geti þryfist. Slíkt setur vissulega einhverjar hömlur á einkaframtakið en það er nú einu sinni þannig að það að búa í samfélagi manna setur alltaf á einhvern hátt hömlur á framtaksmöguleika einstaklingsins. Venjulega er talið að það sé fyrst eðlilegt að skerða einstaklingsfrelsið þegar það fer að skerða frelsi annarra. Ég tel að slíkt gerist einmitt þegar auður eins verður svo verulega mikið meiri en hinna að hann geti farið í skjóli þess að ráða umtalsvert meiru í stjórnun samfélagsins. Það er tómt mál að tala um lýðræði meðan fáeinir auðmenn geta stjórnað lýðræðislega kjörnum fulltrúum í krafti auðs síns.

Héðinn Björnsson, 2.1.2009 kl. 18:38

2 identicon

Snemma beygist krókurinn til þess sem verða vill. Flottur peyi..

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 21:14

3 Smámynd: Jón Sigurðsson

Þarna fór einlægur drengur með einbeittan vilja til þess að fá óskir sínar uppfylltar. Hugur hans var hreinn og óflekkaður. Hann langaði og lagði sig fram um að ná markmiðinu. Hann kom hreint fram og uppskar í samræmi við það. Maður uppsker í í samræmi við sáðmagnið og þann jarðveg sem sáð er í , eða það ætla ég rétt að vona. Einlæg ósk, heiðarleg framkoma er uppskrift að samfélagi sem gott er að vera þátttakandi í. Guð blessi þennan unga svein sem hefur ekki enn glatað sakleysinu að vera hann sjálfur og er óskaddaður af loddurum samtímans

Jón Sigurðsson, 2.1.2009 kl. 21:35

4 Smámynd: Víðir Benediktsson

Einstalingsframtak er gott svo framarlega að heiðarleiki sé hafður að leiðaljósi. Drengurinn reyndi ekki að blekkja og þessi frásögn þín fær vissulega dýpri merkingu við nánari skoðun.

Víðir Benediktsson, 3.1.2009 kl. 09:28

5 Smámynd: Anna

Skemmtileg saga af þessum litla gutta.   Ég var stödd í lítilli búð hér í mínum heimabæ þegar tvær litlar hnátur  komu inn, sömuleiðis rjóðar í vöngum, enda frost úti og snjór.  Þær buðust  til að syngja í búðinni því þeim þætti bara svo ægilega gaman að syngja fyrir fólk.  -  Þetta gladdi afgreiðslufólk og viðskiptavini og þær fengu klapp fyrir.  Nei það má nú  ekki alveg kæfa einkaframtakið.

Anna, 3.1.2009 kl. 13:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband