Hælismatur

reykjalundur

Vikurnar á Reykjalundi eru orðnar tvær og dvöl mín þar hálfnuð.

Ég finn mikla framför. Þrek og styrkur er að aukast jafnt og þétt, hægt og bítandi.

Það er indælt að vera á Reykjalundi.

Vinur minn, Steini Gunnars, er með aumingjabetri mönnum. Eitt kvöldið sótti hann mig "á Hælið" eins og hann orðaði það og ók með mig upp í Mosfellsdal. Þaðan skunduðum við á Þingvöll og treystum vor heit áður en ekið var um Grafninginn heim og Steini skilaði vini sínum aftur "á Hælið".

Mikið var þetta falleg leið og Steini skemmtilegur ferðafélagi og vinur í raun.

Ég fór að hugsa um þetta orð, "hæli".

Hefur það ekki dálítið neikvæðan hljóm?

Samkvæmt orðabók er hæli mjög fallegt orð. Hæli er skjól og athvarf.

Menn eiga sér hæli. Fólk leitar hælis.

Og góðir vinir eru góð hæli.

Oft er talað um hæli í Biblíunni.

Í síðari Samúelsbók segir:

Guð minn, hellubjarg mitt þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns,
háborg mín og hæli, frelsari minn sem bjargar mér undan ofríki.

Og í 34. Davíðssálmi:

Finnið og sjáið að Drottinn er góður,
sæll er sá maður sem leitar hælis hjá honum.

Í Sálmi 52 er þekkt týpa til umfjöllunar:

Þetta er maður sem leitaði ekki hælis hjá Guði
heldur treysti á auðsæld sína
og þrjóskaðist í illsku sinni.

Ekki eru hælin alltaf jákvæð athvörf, sbr. þessi orð úr spádómsbók Jesaja:

Þá mun hagl sópa burt hæli lyginnar
og vatnsflóð skola burt skjólinu.

Það hefur ekki breyst að enn á lygin á sér ótal hæli og svikarar skjól.

Reykjalundur er hæli í þess orðs bestu merkingu. Staðurinn er fyrirmyndardæmi um íslenska velferðarkerfið. Þar vinnur elskulegt fólk í öllum stöðum.

Og kokkurinn á Reykjalundi fær fimm stjörnur fyrir frábæran hælismat.

Myndin: Einn daginn fórum við í fjallgöngu. Helgafell var klifið. Hér er horft niður á Reykjalund úr hlíðum Helgafells. Hafravatn er í baksýn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka fyrir áhugaverðan pistil sem og aðra sem þú hefur skrifað.

Það fer auðvitað ekki hjá því að menn hugleiði og sjái við tilteknar
aðstæður hverjir eru vinir og hverjir virðast ekki vera það.
En umfram allt er þó sú innsýn og þroski sem á sér stað.

Vona að bati sé rétt handan hornsins og að þú fáir séð þau
náðarverkin dag hvern í stóru sem smáu.

Stones sungu Gimmie Shelter. Þeir sungu líka Happy og til eru
ævintýralegar útfærslur af þessu lagi með Keith og The New Barbarians,
undirleikur Ronnie Wood minnisstæður á síðustu konsertum, -

handan hornsins er líka árangur erfiðisins; hamingjan.

Lifðu heill.

Húsari. (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 12:24

2 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Skemmtilegt að þú skulir taka upp þessa umræðu um hæli. Þegar við hjónin vorum á Heilsustofnun í Hveragerði fór ég eitthvað að kvarta undan því að staðurinn væri ekki lengur nefndur hæli og kom þá í ljós að ég var ein um þá skoðun að hæli væri fallegt orð.

Þeir sem tóku þátt í þessari umræðu töldu að munaðarleysingjahæli  og fátækrahæli í sögum Dickens hefðu haft áhrif á merkingu orðsins.

Ég komst að því fyrir mína parta að  Sálmarnir í GT hefðu mótað minn skilning.

Ég las ung predikanasafn eftir Séra Friðrik Friðriksson sem heitir ,,Guð er oss hæli og styrkur."  Sálm. 46:2 sem talaði vel inn í aðstæður mínar þá.

Það er þakkarefni að þjóðin skuli vera svo rík að geta rekið svona góð og þörf hæli og komið fólki aftur til fjölskyldu sinnar og vinnu.

Hólmfríður Pétursdóttir, 13.6.2009 kl. 17:07

3 identicon

Sæll Svavar, gott að þér heilsist vel á hælinu. Ég bý ekki langt frá þar sem þú dvelur. Skemmtileg mynd frá Helgafellinu. Mæli með, ef þú hefur þrek til, að smella þér upp á Úlfarsfellið. Þar hef ég ótal sinnum rölt upp með krökkunum og útsýnið frábært í góðu veðri. Mætti halda að Megas hefði verið staddur þar þegar hann fékk hugmyndina af textabrotinu "finnst þér ekki Esjan vera sjúkleg og Akrafjallið geðbilað að sjá" úr laginu "Spáðu í mig". Gangi þér vel.

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 19:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband