Kraftbirting lýðræðisins

DSC_0430

Lýðræðið getur tekið á sig skemmtilegar og óvæntar myndir.

Þannig er það lýðræði að láta kjósa sig á þing með því að vera á móti ESB - en sækja svo um aðild að ESB þegar maður er kominn á þing.

Það er víst líka lýðræði að halda alveg æðislega ræðu gegn ESB í gær - en vera svo ekki á móti því að sótt sé um aðild að ESB í dag.

Það er lýðræði að leyfa ekki þjóðinni að segja sitt um það hvort sækja eigi um aðild að ESB.

Hinir háu herrar og frúr kalla þá einföldu atkvæðagreiðslu "tvöfalda".

Gera með öðrum orðum ekki ráð fyrir að þjóðin geti ósköp einfaldlega hafnað því að sótt verði um aðild að ESB.

Líka þótt kannanir bendi eindregið til þess.

En svona er víst lýðræðið.

Lýðræðið lýsir sér líka þannig að undanfarna mánuði hefur þjóðinni verið sagt að hún geti ekki tekið vitræna afstöðu til ESB nema hún sæki um aðild að ESB.

Og þó að hún sæki um aðild að ESB sé ekki þar með sagt að hún ætli að ganga í ESB.

Sumir sögðu okkur að þeir væru algjörlega á móti því að ganga í ESB en ætluðu samt að sækja um inngöngu í ESB fyrir lýðræðið.

Núna segja þeir okkur að þessi könnunaraðildarumsókn endi sennilega með því að Ísland verði komið í ESB árið 2013.

Svona er nú lýðræðið.

Samt er engin ástæða til að óttast þó að vegir lýðræðisins séu ófyrirsjáanlegir.

Það er búið að segja okkur að ekki verði gengið í ESB án þess að þjóðin greiði um það atkvæði þegar þar að kemur.

Reyndar höfnuðu þeir því í dag að sú atkvæðagreiðsla yrði bindandi.

Hún er bara ráðgefandi.

En þannig er lýðræðið.

Meirihlutinn ræður ekkert endilega.

Í ákveðnum tilfellum er vissara að leyfa honum bara að gefa góð ráð.

Myndin: Enginn þarf að vera hissa á því þótt lýðræðið sem stendur á þessum göngustíg sé orðið frekar óljóst því það er búið að traðka á því í mörg ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Meirihluti landsmanna hefur verið fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju í mörg ár.

Lýðræði?

Matthías Ásgeirsson, 17.7.2009 kl. 00:17

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Mikill meirihluti landsmanna er í Þjóðkirkjunni, Matthías, og á undanförnum árum hafa mörg stór skref verið stigin í átt til aðskilnaðar ríkis og kirkju.

Annars skrifaði ég ekki þennan pistil til að hefja umræður um aðskilnað ríkis og kirkju þó að það sé spennandi umræðuefni.

Höldum okkur við efnið.

Svavar Alfreð Jónsson, 17.7.2009 kl. 00:26

3 identicon

Góður, séra Svavar.

 Hvar er Búsáhalda-fólkið núna? Hvers vegna mótmælir það ekki slíku lýðræðisskrumi? Auðvitað inni á þingi.... Bæði Vinstri Grænir og Borgarahreyfingin voru kosin inn. Þess vegna er svo fámennt í mótmælum. Það er að minnsta kosti mín skoðun.

 Það er eins og þingfólk vort hristi af sér öll loforð og fyrirheit þegar það gengur inn í Alþingi. Þau eru víst ekki leyfð, frekar en hundar og kettir.

Oj foj, séra Svavar. Maður verður heldur vonlítill um framtíð okkar fagra Íslands, þegar jafnvel ein elsta lýðræðisstofnun heims er umsetin af fólki sem virðist varla gera annað en að klóra hvert öðru á bakinu fyrir túkall og á meðan kyrja þau "fólkið í landinu" "fólkið í landinu" og slefa af valdagræðgi. Minnir helst á gamla en kannski ekki svo ýkta, sögu af Svínum sem taka yfir bóndabýlið og breyta því sem átti að vera lýðræði, í andstæðu sína.

Láttu vita þegar þú átt leið til Danaveldis, minn kæri séra. Það er ávallt heitt kaffi á könnunni og aldrei lengi að bíða eftir pönnsum

Bestu kveðjur!

Íris Drøfn Jónsdóttir (IP-tala skráð) 17.7.2009 kl. 09:05

4 Smámynd: Haraldur Hansson

Nýja Ísland.

Það átti að auka virðingu Alþingis og efla lýðræðið. Við sáum útkomuna í gær. Þingmenn þvingaðir til að kjósa "rétt" undir hótunum um stjórnarslit. Hver á fætur öðrum þurfti að biðjast afsökunar á atkvæði sínu.

Á Nýja Íslandi er það minnihlutinn sem ræður. Lýðræðisumbætur felast í því að kúga menn til að kjósa rétt með pólitískum yfirgangi. Svo hrósa menn sigri og óska Íslandi til hamingju!

Haraldur Hansson, 17.7.2009 kl. 10:46

5 identicon

Góður pistill hjá þér Svavar!

Eina athugsemdasemd vil ég þó gera. Ég held að það hafi komið fram í könnunum að meirihluti þjóðarinnar vilji sækja um aðild að Evrópusambandinu, enda þótt það sé ekki meirihluti fyrir inngöngu. Í þetta vísuðu nokkrir þingmenn í gær. Fyrir utan hópana tvo sem eru með eða móti inngöngu í Evrópusambandið þá er líka hópur fólks, sem vill fá það á hreint hvað sé þarna í boði og um hvað sé hægt að semja áður en það gerir upp hug sinn.

Hinu er ég þér sammála um að það hefði nú verið lýðræðislegra að bera þetta undir þjóðina og fá úr því skorið með óyggjandi hætti hvort meirihluti væri fyrir því að leita eftir samningum.

Magnús Erlingsson (IP-tala skráð) 17.7.2009 kl. 13:07

6 identicon

Mér finnst menn ómarktækir þegar þeir mæla með lýðræði en stefna svo á og boða algert einræði á himnum.
Boðorð guðs er: Kjósið mig eða ég pynta ykkur að eilífu....

DoctorE (IP-tala skráð) 17.7.2009 kl. 13:09

7 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þakka þér fyrir þetta, Magnús.

Sumir segja að skoðanakannanir búi til fleiri spurningar en í þeim var svarað og má taka undir það.

Svörin fara oft eftir því hvernig spurningin var orðuð.

Ég bendi á að samkvæmt könnun Capacent Gallup frá því í síðasta mánuði vilja þrír af hverjum fjórum þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort sækja eigi um aðild að ESB.

Önnur könnun frá sömu stofnun sýnir frekar lítinn áhuga almennings á "aðildarviðræðum".

Svavar Alfreð Jónsson, 17.7.2009 kl. 16:11

8 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Athugasemd mín snerist meira um lýðræði heldur en aðskilnað ríkis og kirkju.  En mér fannst áhugavert hvernig þér tókst að tala þig í kringum vilja meirihluta þjóðarinnar þegar umræðuefnið hentar þér ekki.

Svo æsir þú þig útaf smámáli eins og ESB.

Matthías Ásgeirsson, 18.7.2009 kl. 00:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband