22.12.2017 | 23:45
Jólin 2017
Frostrósir lifna á fannbörðum gluggum,
flöktandi kertaljós útrýma skuggum,
burt rekur kuldann úr brjóstunum svörtum
brennandi ástin í krummanna hjörtum.
Gleðileg jól, góðu vinir nær og fjær!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2017 | 19:48
Pabbi
Jón Viðar Guðlaugsson
Fæddur 29. nóvember 1934 - Dáinn 5. maí 2017
Ég sat við sjúkrarúmið hans pabba og hélt í höndina sem hafði klappað mér á koll og kinnar. Hann tók sinn hinsta andardrátt í bjartri morgunsólinni og djúpur friður breiddist yfir andlitið.
Allt í einu þurfti ég að vera án hans sem hafði verið óbreytanleg stærð í tilvist minni frá því ég fæddist. Brjóst mitt fylltist dökku tómi en á úlnliðnum hans tifaði úrið til marks um að áfram héldi lífið.
Nú þegar svöl næturþoka læðist um göturnar sem við áttum samleið um sit ég einn í birtu ótal ljúfra minninga.
Hann var oft skemmtilega ófeiminn við að tjá skoðanir sínar en ræddi ekki mikið um eigin tilfinningar. Aldrei lét hann okkur systkinin þó efast um að hann elskaði okkur. Sömu vissuna áttu afabörnin hans og langafabörnin. Okkur öllum miðlaði hann rausnarlega af hæfileikunum sem honum voru gefnir, spilaði fyrir okkur á píanóið og sagði okkur skemmtilegar sögur.
Hvað geta synir sagt sem hafa átt slíkan föður? Orð eru vandfundin en tilfinningar mínar eru skýrar: Sorg, söknuður og tómleiki en ekki síður ást og þakklæti fyrir allt sem hann kenndi mér og gaf.
Hann kenndi mér að forðast fals og standa með mér sjálfum. Hann kenndi mér að hnýta bindishnút. Hann kenndi mér að virða kynlegu kvistina og finna skoplegu hliðarnar, jafnvel á nökkvaþungri alvörunni. Hann kenndi mér að raka mig með sköfu. Hann kenndi mér að meta góðar bækur og frjálsa hugsun. Hann kenndi mér að nánast alltaf væri gott veður á Akureyri en ella örstutt í að það batnaði. Hann kenndi mér að sjálfur væri maður sitt mesta aðhlátursefni. Hann kenndi mér að pússa skó. Hann kenndi mér að elska lífið. Hann kenndi mér að oft geta litlir atburðir orðið tilefni mikilla sagna. Hann kenndi mér að Nat King Cole væri besti dægurlagasöngvari allra tíma. Hann kenndi mér að til væri góður Guð.
Hann gaf mér rúm 56 ár af ástúð, uppeldi, uppörvun, umhyggju, vináttu og gleði.
Guð og englarnir geymi pabba.
(Minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu á útfarardegi pabba, 19. maí)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2017 | 18:32
Blessaður sé blúsinn
Nýliðinn er einn undarlegasti dagur ársins, föstudagurinn langi.
Í uppvexti mínum var hann einn af hátíðisdögum hvers árs en skorti þó flest sem slíka daga prýddi; engar gjafir, enginn sérstakur matur, engin páskaegg, engir flugeldar, engir fánar og engar blöðrur. Föstudagurinn langi var nakinn. Þá mátti ekkert.
Hann var eiginlega antíhátíð.
Nú birta fjölmiðlar vitnisburði fólks sem mátti þola þessi botnlausu leiðindi föstudagsins langa og kvartar sáran undan áþján hans. Dagur drungans og föstudagurinn laaaaaangi eru meðal viðurnefna sem þessum ræfils degi eru gefin.
Umgjörð föstudagsins langa hefur tekið miklum breytingum. Nú eru búðir opnar. Nú er spiluð danstónlist á útvarpsstöðunum og bingó á torgunum. Föstudagurinn langi á ábyggilega eftir að breytast enn meira því fólk vill ekki láta segja sér fyrir verkum á þeim degi frekar en öðrum.
Þessi stakkaskipti á ytri umbúnaði föstudagsins langa hafa þó ekki spillt honum fyrir mér. Þvert á móti þykir mér sífellt vænna um þennan dag og hann talar enn sterkar til mín núna en í gamla daga þegar nánast allt var bannað hans vegna.
Mér finnst hollt að hafa einn dag af 365 tileinkaðan drunganum, myrkrinu og þjáningunni vegna þess að drunginn, myrkrið og þjáningin eru jafn veigamikill hluti af tilvist mannsins og blúsinn er tónlistinni.
Í Passíusálmunum er þetta vers:
Yfir hörmungar er mín leið
æ meðan varir lífsins skeið.
Undan gekk Jesús, eftir ég
á þann að feta raunaveg.
Maðurinn er í sínu innsta eðli þannig, að honum nægir ekki að vinna og hugsa heldur syngur hann, dansar, biður bænir, segir sögur og gerir sér dagamun. Hann er homo festivus, segir Harvey Cox, amerískur guðfræðingur og rithöfundur í merkilegri bók sinni The Feast of Fools.
Þar bendir hann á að engin menningarsamfélög séu án hátíða. Að halda hátíðir sé eitt af því sem geri manninn mennskan.
Cox heldur því fram að í vestrænni menningu sé mikil áhersla lögð á að maðurinn vinni og hugsi. Sú áhersla, knúin fram af iðnvæðingunni, staðfest af heimspekinni og helguð af kristindómnum, hafi átt stóran þátt í þróun vestrænna vísinda og tækniframförum. Það hafi þó ekki verið án fórna. Fólk í okkar heimshluta hafi verið svo upptekið af vinna og hugsa sér til gagns að það hafi glatað tilfinningunni fyrir hinni hástemmdu viðhöfn, ákafa leik og frjálsa hugarflugi.
Sál okkar hafi skroppið saman með þeim afleiðingum að við kunnum ekki lengur að halda hátíð eða gera okkur dagamun. Hver dagur sé öðrum líkur. Þar með hafi siðmenningin verið svipt fortíð sinni og sögu og fyllt tortryggni gagnvart framtíðinni.
Hinn vestræni, iðnvæddi maður þurfi að læra upp á nýtt að gera sér dagamun eigi mennskunni að vera bjargandi.
Við þurfum að enduruppgötva hátíðirnar, tyllidagana, viðhöfnina og leikinn.
Það er hollt að bregða út af vananum því það gerir okkur sveigjanlegri, umburðarlyndari og framtakssamari. Og það gæti riðið baggamuninn.
Blessaður sé föstudagurinn langi og öll hans leiðindi, tregi og drungi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2017 | 10:37
Óður elgur raskar svefni miðaldra hjóna á Akureyri
Drjúgan hluta næturinnar vorum við hjónin á flótta undan djöfulóðum elg. Undir morgun leituðum við skjóls í bjálkakofa í skóginum og földum okkur þar í efri koju.
Þar sem við biðum í myrkrinu milli vonar og ótta heyrðum við elginn þramma inn í kofann. Hann kom inn í herbergið með kojunni og um leið féll tunglsljósið á horn hans löðrandi í blóði og holdtætlum.
Þá rak ég upp óp mikið en var farinn að losa aðeins svefn svo ég heyrði í sjálfum mér og ósjálfrátt varð öskrið niðurbælt. Fyrir vikið varð það enn skelfilegra en ella, ísmeygilegt, ískrandi og endaði í hryglukenndri stunu.
Bryndís mín hrökk upp af værum svefni og fékk næstum fyrir hjartað þegar langdregið gólið rauf næturkyrrðina. Ég vaknaði líka endanlega við óhljóðin í sjálfum mér.
Konan spurði hvað í ósköpunum gengi á.
Mér fannst engin þörf á að útskýra það fyrir henni og trúði því mátulega þegar hún kannaðist ekkert við elginn þarna í hjónarúminu. Síðustu klukkutímana hafði hún jú verið með mér í baráttunni við þetta skaðræðiskvikindi.
Ást er að deila saman draumum sínum - og martröðum......
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2017 | 09:16
Ammæli
Elstu raðhús Akureyrar standa í þokkafullri fylkingu á svæði sem afmarkast af Mýrarvegi, Norðurbyggð, Byggðavegi og Vanabyggð. Það fyrsta var reist árið 1958 og því fagnar þessi byggð 60 ára afmæli á næsta ári. Síðustu tæpu tvo áratugina höfum við hjónin átt heima í einu þessara húsa og ólum þar upp börnin okkar þrjú. Við vitum að uppblásin blaðra á útidyrum eða handriði við einhverja íbúðina þýðir mjög sennilega að eitt af fjölmörgum barnanna í húsunum eigi afmæli.
Í morgun þegar ég var kominn á lappir rak ég augun í þannig blöðru og ég fór að rifja upp allar blöðrurnar sem við hjónin höfum fest á okkar útidyr í gegnum tíðina, að jafnaði þrisvar á ári, í maí, júní og nóvember. Margar eru þær orðnar pítsurnar sem þá voru sóttar, goslítrarnir sem búið er að hella í plastglös og skúffukökurnar sem við höfum sneitt niður á diska af mun meiri sanngirni en þjóðarkökunni er skipt. Ég man vel eftir eftirvæntingarfullu augnaráði veislugesta á tröppunum þegar afmælisbarnið lauk upp útidyrum og brosinu á því þegar það fékk pakkann sinn. Enn glymja í eyrum mínum hlátrarnir og hrópin í leikjunum sem var farið í á þessum dýrðardögum enda var venjan að vara nágrannana í næstu íbúðum við væntanlegum glumrugangi.
Það mæltist líka mjög vel fyrir þegar ég mætti með gítarinn í veislurnar, hóf upp raust mína og tók nokkra vel valda sunnudagaskólasöngva með krökkunum sem létu sitt ekki eftir liggja í söngnum. Þetta hafði ég stundað um árabil þegar upp rann enn einn afmælisdagur dóttur minnar. Ég var seinn fyrir og veislan var byrjuð svo ég sótti gítarinn í skyndi og geystist með hann glaðbeittur inn í stofu. Unglingsstúlkurnar sem þar sátu settu upp mikinn undrunarsvip og ásakandi augnaráð afmælisbarnsins sagði mér að nú væri þessum kafla í tónleikasögu heimilisföðurins lokið.
Tími barnaafmælanna er liðinn í okkar íbúð, alla vega í bili, en ég óska afmælisbörnum dagsins í íbúðum og húsum nær og fjær innilega til hamingju með daginn.
Bloggar | Breytt 14.3.2017 kl. 06:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.12.2016 | 01:55
Asninn
Prédikun við aftansöng í Akureyrarkirkju á aðfangadagskvöld jóla 2016.
Á viðeigandi stað í ræðunni hrein félagi úr Kór Akureyrarkirkju.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Í sumarfríi í Frakklandi nýlega gistum við nokkrar nætur á hóteli í gamalli sögunarmyllu úti í sveit. Þegar við komum heim á kvöldin og höfðum lagt bílnum okkar á bílastæðinu lá leiðin framhjá ösnum í girðingu. Strax fyrsta kvöldið varð einn þeirra sérstakur vinur okkar. Síðasta daginn á hótelinu vorum við frekar seint á ferðinni og hugðumst ganga fram hjá gerðinu án þess að heilsa upp á asnann. Við vorum komin langleiðina að innganginum þegar við kvað svo skelfilegt org að blóðið fraus í æðum okkar. Við litum um öxl og sáum hvar asninn okkar kom slammandi. Hann hrein eins og hann ætti lífið að leysa en þagnaði jafnskjótt og hann sá að vinir hans snéru við og gengu hröðum skrefum í átt að honum við girðinguna. Þar urðu miklir fagnaðarfundir. Asninn skælbrosti á meðan við klöppuðum honum og báðumst innilega afsökunar á þeim dónaskap að hafa ætlað að ganga framhjá honum.
Þessi franski asni sýndi okkur fram á að asnar eru alls engir asnar.
Þótt ekki sé það sérstaklega tilgreint í Biblíunni er það eldgömul hefð að hafa asna með í sögunni um fæðingu Jesú. Samkvæmt henni bar asni Maríu með barnið inni í sér til Betlehem. Asninn var viðstaddur fæðingu frelsarans. Og þegar Jósef fékk boð í draumi um að flýja með þau mæðgin undan Heródesi sem vildi drepa barnið var það samkvæmt sömu hefð asninn sem skilaði þessu flóttafólki í öryggið.
Mörgum árum síðar bar sama dýrategund Jesú inn í borgina Jerúsalem þegar fólkið fagnaði honum með pálmagreinum, nokkrum dögum áður en hann lauk sinni jarðvist.
Hafi einhverjum brugðið við að heyra asnahrín hér í aftansöngnum og ekki fundist það beinlínis jólalegt má benda á að ef til vill var það nú samt eitt það fyrsta sem Jesúbarnið heyrði. Sterk kirkjuleg hefð er fyrir því hafa asna bæði við upphaf lífs Jesú og lok þess.
Á Palatínsafninu í Róm er eldforn grínmynd frá þriðju öld eftir Krist. Upphaflega var hún rist í vegg á skóla og átti auðsjáanlega að vera einum nemendanna þar til háðungar, kristnum dreng að nafni Alexamenos. Á myndinni er verið að krossfesta mann með asnahaus. Við krossinn stendur téður Alexamenos. Þar er ritað:
Alexamenos tilbiður Guð sinn.
Þrátt fyrir napurt háðið virðist þessi asnamynd, sem talin er vera ein elsta varðveitta myndin af krossfestingunni, litlu hafa breytt um trú Alexamenosar. Á henni er önnur áritun, gerð annað hvort af Alexamenosi sjálfum eða stuðningsmanni hans, svohljóðandi:
Alexamenos er trúfastur.
Höfundur asnamyndarinnar ætlaði að sýna fram á fáránleika trúar hins kristna skólabróður síns. Hverskonar guð er það sem lætur krossfesta sig? Enn finnst mörgum asnalegt að trúa og enn asnalegra að trúa að hætti kristinna manna. Ekki var nóg með að Guð þeirra hafi verið svo varnarlaus, að hann var líflátinn saklaus, heldur fæddist hann í jötu, í fjárhúsi og var orðinn flóttamaður sömu nótt og hann fæddist. Hverskonar Guð er það? Hvaða Guð er það sem ekki beitir mætti sínum og lætur allt það vonda viðgangast? Hvaða Guð er svo máttlaus að hann getur ekki látið alla trúa á sig?
Nú fyrir jólin birtust í leiðara íslensks fjölmiðils hugleiðingar um tilvistarkreppu kirkjunnar og síminnkandi þörf mannsins fyrir trúna. Það eru helst þeir, sem standa veikast og hafa brennt allar brýr að baki sér, t. d. með neyslu og ólifnaði, sem sjá ljósið og finna nýjan tilgang í kristni, sagði þar orðrétt.
Hvað sem að öðru leyti má segja um þessi ritstjórnarskrif er sannleikur í þessari tilvitnun. Guð kristninnar kemur mörgum undarlega fyrir sjónir. Hann birtist ekki hér á jörðu í krafti sínum og mætti. Hann kemur þvert á móti í veikleika. Og hann vill vera Guð þeirra veiku. Guð þeirra sem eiga undir högg að sækja. Guð þeirra sem finna vanmátt sinn. Guð þeirra sem hafa villst. Jesús hneykslaði samborgara sína með því að samneyta tollheimtumönnun, hórsekum konum, útskúfuðum syndurum og öðrum sem undir högg áttu að sækja. Hann benti á að heilbrigðir þurfa ekki læknis við heldur þeir sem sjúkir eru. Hann sagðist ekki kominn til að kalla þá réttlátu og vammlausu heldur syndarana og leita að þeim sem væru týndir.
Þannig er Guð Alexamenosar: Guð þeirra sem veikastir eru og hafa brennt brýrnar að baki sér. Hinir sem eru frábærir og réttlátir og fullkomnir hafa enga þörf fyrir hann. Ekki þurfa heilbrigðir læknis við.
Á þessum jólum heyrum við hróp þeirra varnalausu og veiku. Börnin í Aleppó gráta. Fólk á flótta biður um miskunn. Okkur fallast hendur þegar við stöndum andspænis allri þessari botnlausu illsku og við finnum vanmátt okkar.
Í vonleysinu getur öll skynsemi mælt gegn því að vona. En við vonum nú samt. Á jólum gerist undrið. Myrkrið hverfur ekki en veikt ljós kviknar í sorta þess. Guð kemur til okkar í litlu barni. Guð hinna veiku. Guð hinna smáu.
Í kvöld gera kristnir menn það sem þeir hafa gert á öllum jólum undanfarinna alda; þeir ganga inn í hrörlegt fjárhús, gægjast ofan í jötuna og sjá litla barnið sofa. Og þeir finna það sama og Alexamenos og kynslóðirnar hafa gert allar götur síðan:
Jatan geymir Guð. Jatan veitir frelsun. Jatan kveikir von. Jatan færir frið.
Gleðileg jól, kæru vinir, gleðileg jól!
Myndin er af frönsku söguhetjunni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.12.2016 | 23:33
Kemur aftur sólskinið
Nóttin breiðir verndarvæng,
vefur okkur mjúkri sæng.
Púðursnjósins perluglit
prýðir allt með björtum lit.
Jólin láta ljósin sín
lýsa blítt til mín og þín,
lalalalalala...
Þegar jörðu þekur snær
þokast jólin okkur nær
uns við fegin fögnum þeim,
finnum þeirra töfraheim,
jólailm og jólasvein,
jólaskraut á furugrein,
lalalalalala...
Allir glaðning einhvern fá,
ekki neinum gleyma má,
þannig öllum skulu skráð
skilaboð um ást og náð.
Manneskjur með hjörtun hlý
halda jólin enn á ný,
lalalalalala....
Móðir jörð um sjálfa sig
sífellt snýst með mig og þig.
Áfram líður ársins tíð,
yfir leggst hin dimma hríð.
Þá við söng og klukknaklið
kemur aftur sólskinið,
lalalalalala....
Kvæðið gerði ég við norskt lag, Jul i Svingen. Kórar Akureyrarkirkju fluttu það á jólasöngvum sínum í kirkjunni fyrr í mánuðinum.
Myndin er úr Svarfaðardal.
Gleðileg jól, kæru vinir!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2016 | 20:58
Jaxlsrequiem
Fyrir skömmu var dreginn úr mér jaxl. Veitti hann það harða mótspyrnu að vissara þótti að senda mig heim vel nestaðan verkjalyfjum. Næstu dagana bruddi ég parkódín og í vímunni orti ég erfiljóð eftir jaxlinn. Tannlæknirinn sem réði niðurlögum hans fékk að heyra það í gær, í miklu dásemdarinnar aðventuboði. Nú birti ég ljóðið hér vegna örfárra áskorana.
Út við kinn í kjálkans holdi
kúrði jaxl í bóli góms.
Margra ára þrældóm þoldi,
þannig beið síns skapadóms;
kramdi, bruddi, beit og tuggði,
braut í sundur, þrykkti, skar,
sínum kjafti dável dugði,
dyggur þjónn mér lengi var.
Orrustur hann harðar háði,
hörku beita þurfti oft,
hann með seiglu sigri náði
sinar þó að fylltu hvoft.
Fæðutegund engri eirði,
allt var marið, kreist og flatt,
saman massa kjötsins keyrði,
kringlur gamlar muldi hratt.
Jaxlinn sá í mínum munni
marga áratugi sat,
hvíldar sér hann ekki unni
ef ég var að tyggja mat.
Á hann settist sykurkvoða,
sýra brenndi glerunginn.
Feigðarinnar fyrirboða
fann ég nálgast vininn minn.
Karíus og fleiri fjendur
fjölmörg unnu honum mein,
nagaður og niður brenndur
næstum var hann oní bein.
Hirðir tanna dauðadóminn
daufri röddu upp mér las,
deyfilyfjum dældi´í góminn,
dreif svo í mig hláturgas.
Er ég var í vímumóki,
vinnu hóf hann mitt við gin.
Tók þar á með töng og króki,
togaði´ í minn gamla vin.
Tilneyddur svo beitti bragði,
bág var orðin staða mín,
og við klínku sína sagði:
Sæktu nítróglyserín.
Sprenging allt í einu drundi,
upp steig biksvart reykjarský,
eftir því ég óljóst mundi
uns ég rænu fékk á ný
og í stólnum upp mér slengdi,
um að litast vildi fá.
Endajaxlinn úr mér sprengdi
úti´ á gólfi brotinn lá.
Titrandi með tár á vanga
trega ég þig, dyggi þjónn.
Nú er gengin leiðin langa,
lagsins hljómar endatónn.
Tómlegt þykir tungu minni
tanna´ að renna yfir garð
þegar hún með þungu sinni
þitt í gómi finnur skarð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.11.2016 | 22:08
Kirkja úr túrtöppum
Í dag héldum við kirkjudag á 76 ára afmæli Akureyrarkirkju. Ég prédikaði í messunni. Hér er ræðan.
Allt frá árinu 1948 hefur klukkuspil Akureyrarkirkju leikið ferhendu Björgvins Guðmundssonar mörgum sinnum á degi hverjum. Lagið er fyrir löngu orðið hluti af hljóðsvip Akureyrar. Árið út og inn minna klukkurnar okkur á sig og kirkjuna.
Mínir sauðir heyra raust mína, segir Jesús í guðspjalli dagsins. Við getum heyrt þá raust í klukkunum. Þær boða Krist með sínum hætti. Klukkurnar eru meira en opinbert tímamælitæki. Þær hafa annan tilgang eins og fleira í kirkjum landsins. Þar eru til dæmis gjarnan góð hljóðfæri og aðstaða til kórsöngs. Þó eru kirkjurnar ekki tónleikahallir. Þar eru ræðupúlt og ræðustólar. Þó eru kirkjur ekki málstofur. Í kirkjum er mjög oft alls konar myndlist. Þó eru þær ekki sýningarsalir. Kirkjur eiga oft merkilega gripi en samt eru þær ekki söfn.
Í kirkjum heyrum við tónlist, texta og ræður og sjáum myndir í gleri, römmum og steini. Engu að síður lúta kirkjur lúta öðrum byggingarfræðilegum lögmálum en tónleikahús, fyrirlestrasalir og gallerí. Það segir okkur, að enda þótt öll þessi listform hafi tilgang í sér sjálfum eru þau hér í þessu húsi í þjónustu við annað. Allt þetta bendir á þann sem kirkjan þjónar, Jesú Krist. Allt þetta á að láta raust hans heyrast, spor hans sjást og návist hans finnast.
Kirkjur eru helgidómar. Þær eru stundum kallaðar guðshús. Kristnir menn trúa því að Guð sé úti um allt. Þó eru honum byggð hús, ekki vegna þess að hann þarfnist þaks yfir höfuðið. Kirkjuhúsin eru okkar vegna eins og aðrir heimsins helgidómar, moskur, musteri og sýnagógur. Þessar byggingar þjóna trúarþörf mannsins, eiga að hjálpa honum að upplifa helgi, finna Guð og skynja hina andlegu vídd í tilverunni og sér sjálfum.
Akureyrarkirkja er áberandi þar sem hana ber við himin á brekkubrúninni, ein hinna þokkafullu Akureyrarmeyja. Nýlega færði listakonan Jónborg Sigurðardóttir henni gjöf, fagra mynd af kirkjunni. Myndin er búin til úr túrtöppum. Hún skírskotar til þess kvenlega, krafts tíðablóðsins, sem karlaveldinu stóð svo mikill stuggur af að lengi var illa séð ef konur komu í kirkju á meðan þær höfðu á klæðum.
Í þessu samhengi má rifja upp orðin úr Títusarbréfi: Allir hlutir eru hreinum hreinir en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska.
Mynd Jonnu er vitnisburður um margslungna starfsemi mannslíkamans, þessa dásamlega sköpunarverks. Listaverk Jonnu bendir líka á hinn kvenlega þokka sem prýðir kirkjuna okkar. Síðast en ekki síst minnir myndin á ómetanlegt framlag kvenna, bæði til kirkjubyggingarinnar og kirkjustarfsins. Á sínum tíma kostaði það söfnuðinn mikla peninga að byggja þessa glæsilegu kirkju á erfiðum tímum. Konurnar í söfnuðinum lögðu þar sitt af mörkum með hlutaveltum, merkjasölu, munasölu, kaffiveitingasölu, happdrættum, skemmtisamkomum og ýmsu öðru móti, eins og Sverrir Pálsson segir í bók sinni, Sögu Akureyrarkirkju.
Sú staðreynd, að listakonan og gefandi verksins er fyrrverandi formaður Kvenfélags Akureyrarkirkju skerpir enn þessa tengingu milli verksins og hins merka starfs kvenna í þessari kirkju og í hennar þágu. Ég vil nota þetta tækifæri hér og þakka innilega fyrir þessa fallegu gjöf sem hægt er að sjá niðri í Safnaðarheimili. Við þökkum aðrar gjafir kvenna til kirkjunnar. Allar eiga þær að hjálpa okkur að heyra raust Jesú Krists, sjá fótspor hans og finna nálægð hans.
Navid Kermani er þýskur rithöfundur af írönsku bergi brotinn. Hann er múslimi, fræðimaður og rithöfundur. Kermani hefur fengið fjölda viðurkenninga fyrir bækur sínar og starf. Ég er að lesa nýjustu verðlaunabókina hans. Þar fræðir hann sjálfan sig og lesendur um kristna trú með því að skoða kristna myndlist. Kermani nálgast viðfangsefni sitt af mikilli þekkingu, væntumþykju og virðingu. Margt kom honum á óvart í kristninni og margt kemur kristnum lesendum hans á óvart í bók múslimans. Ekki að ástæðulausu nefnir Kermani bók sína Ótrúleg undrun. Það er mjög gefandi að fá að fylgjast með rithöfundi skoða kristna trú með glöggum augum gestsins. Utanfrá sést margt sem ekki er eins auðsýnilegt að innan enda hefur Kermani verið hrósað fyrir að kynna kristna trú fyrir Þjóðverjum á nýjan leik, trúarbrögð, sem eru orðin stórum hluta þeirra framandi. Einn gagnrýnandinn orðaði það þannig, að búið væri að svipta ýmis lykilhugtök kristninnar trúarlegri merkingu, hola þau að innan. Í bók sinni tækist Kermani að gæða þau merkingu og innihaldi aftur.
Í nýlegu blaðaviðtali um bók sína segir Kermani að trúin sé frekar upplifun skynfæra en vitsmuna. Þess vegna séu listirnar svo mikilvægar trúnni. Hann segir margar kirkjudeildir mótmælenda leggja of mikla áherslu á að samræma trúna skynseminni á kostnað upplifunarinnar og vanrækja hin lífsnauðsynlegu tengsl trúar og listarinnar í hennar fjölbreytilegu myndum. Ef Kermani fer í kirkju vill hann síður sitja í löngum, köldum og tilbreytingarlausum guðsþjónustum, gjörsneyddum fagurfræðilegum krafti. Til að verða fyrir trúarlegum áhrifum sé þá mun betra að hlusta á Bach-messu, Schubert-sónötu eða Mahler-sinfóníu. Kermani minnir á að það sé ekki hlutverk trúarinnar að standa fyrir réttum skoðunum, hvort sem þær snúist um réttlát launahlutföll eða neyð flóttafólks. Ekki bara trúaðir telji, að fólk eigi að fá réttlát laun fyrir vinnu sína og maður þurfi ekki að vera trúaður til að vilja koma flóttafólki til hjálpar. Það þurfi á hinn bóginn trú til að upplifa Guð og til þess séu trúarbrögðin, að hjálpa fólki að rækta það andlega og finna það guðlega.
Myndin hennar Jonnu tengir saman tvennt sem okkur finnst gjarnan vera andstæður. Úr túrtöppum sem notaðir eru til að safna í sig líkamsvessum byggir hún kirkju. Og þannig er kirkjan. Hún er byggð úr steypu, jarðneskum efnum, dauðum málmi, köldu og brothættu gleri. Kirkjan sem söfnuður er búin til úr dauðlegum og breyskum mönnum. Á sama hátt og steypan, járnið, timbrið og glerið verður að heilögu húsi sem getur hjálpar okkur að finna Guð, á sama hátt og málmur klukkunnar lætur okkur heyra raust Guðs, erum við mennirnir sálir þótt við séum líka samsett úr kjöti, sinum, beinum og blóði. Við höfum anda. Í okkur öllum er guðlegur neisti. Þetta hús á að hjálpa okkur að hugsa um sálina, rækta andann og glæða neistann. Þetta hús á að hjálpa okkur að finna Guð og heyra raust frelsarans.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2016 | 23:47
Óvinir ESB og karlakóra
Enn er fólk að bregðast við svari ESB við spurningu minni um eðli aðildarviðræðna við sambandið.
Að sjálfsögðu ber engum skylda til að taka mark á því svari en að gefnu tilefni skal áréttað, að svarið er frá ESB en ekki mín kenning:
Ríki sem vilja fá aðild að ESB verða að taka upp allan lagabálk sambandsins. Um hann sem slíkan er ekki hægt að semja. Aðildarviðræður snúast um hvernig og hvenær umsóknarríkin taka upp lög og reglur ESB og hrinda þeim framkvæmd.
Þannig kýs ESB að lýsa aðildarferlinu en það hefur vakið athygli mína að sumir þeirra sem mestan áhuga hafa á að Ísland gangi í ESB sjá sérstaka ástæðu til að efast um að sambandið svari rétt um ferli aðildar að sér sjálfu.
Það eru mjög einkennilegar aðstæður, þegar hvatt er til atkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við ESB en því jafnframt haldið fram, að þeir sem taka eiga þátt í þeirri atkvæðagreiðslu geti ekki treyst upplýsingum frá ESB.
Þó að einhverjir telji sig vita betur en ESB hvernig gengið sé í sambandið hlýtur það að eiga fullt erindi í umræðuna hér hvernig sambandið skilgreinir aðildarferlið.
Þegar rætt er um að ljúka eigi aðildarviðræðum Íslands og ESB má benda á að þær viðræður eiga sér ramma.
Eigi að taka upp viðræðurnar aftur sem einhvers konar könnunarviðræður gætu kviknað efasemdir um að það sé innan gildandi viðræðuramma. Þar kemur skýrt fram að markmið viðræðnanna sé aðild og að Ísland verði að innleiða og hrinda í framkvæmd lagabálki ESB sem er í fullu samræmi við hið umrædda svar ESB sem ég birti hér á bloggi mínu.
Styttra er til Reykjavíkur en Brüssel en um leið er oft óþægilega stutt á milli manna í íslenska fámenninu. Umræðan um hvort Íslands eigi að ganga í ESB ætti að fjalla um þessa og aðra kosti og galla aðildar því það liggur fyrir í öllum megindráttum hvað í henni felst, alla vega ef menn telja óhætt að treysta því sem ESB segir sjálft um hana.
Ég er þeirrar skoðunar að eins og er mæli fleira gegn aðild Íslands að ESB en með henni. Það gæti þó hæglega breyst þegar fram líða stundir.
Í umræðunni hér á landi hafa þeir sem setja fram efasemdir um aðild að ESB stundum verið kallaðir andstæðingar sambandsins. Ég frábið mér slíkan stimpil.
Þaðan af síður get ég samþykkt að ég sé óvinur Evrópu eða einangrunarsinni illa haldinn af þjóðrembu, andvígur alþjóðlegu samstarfi og í nöp við útlendinga og allt sem útlenskt er - ekki síst útlensk matvæli.
Nýlega spurði ég vin minn hvort hann væri ekki til í að koma í karlakórinn. Ekki hugnaðist honum það.
Ætli þessi vinur minn sé þá andstæðingur kórsins míns? Ætli honum sé í nöp við söng? Gæti verið að honum sé hreinlega illa við menningarstarf og hafi skömm á listamönnum?
Vel má vera að einhverjir vilji ekki ganga í kóra vegna þess að þeim er illa við söng og menningu.
Það kæmi mér þó mjög á óvart ef fólk með slík viðhorf væri fjölmennari hópur en kjósendur Íslensku þjóðfylkingarinnar.
Myndin: Haustkvöld við Eyjafjarðará
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)